Lakkrístoppurinn 30 ára
Lakkrístoppurinn sívinsæli er 30 ára í ár. Hann er að mörgu leyti einstakur og um leið ómissandi partur af undirbúningi jólanna hjá mörgum landsmönnum.
Kurltoppar eða Lakkrístoppar
Árið 1994 var haldinn smákökukeppni á vegum matreiðsluklúbbsins Nýir eftirlætisréttir. Rúmlega þúsund manns sendu inn uppskrift í keppnina. Lokakeppnin fór fram í Borgarkringlunni og þar sigraði Hrefna Guðmundsdóttir með uppskrift sinni af Kurltoppum sem síðar fengu nafnið Lakkrístoppar. Uppskriftin er einföld og inniheldur einungis fjögur hráefni. Nóa lakkrískurl, Síríus rjómasúkkulaði og hin eru eggjahvítur og púðursykur.
Hrefna Guðmundsdóttir
Hrefna Guðmundsdóttir frá Sauðárkróki hreppti fyrsta sætið með uppskrift sinni sem átti svo sannarlega eftir að breyta íslenskum jólum. „Uppskriftin sló strax í gegn fyrir jólin 1994 og seldist allt Nóa lakkrískurl upp, slíkur var spenningurinn. Til gamans má nefna að á þessum tíma var önnur Hrefna búsett á Sauðárkróki. Hún fékk svo mörg símtöl á þessu tímabili þar sem fólk leitaði ráða vegna bakstursins að hún íhugaði um tíma að taka nafn sitt úr símaskránni.“