Ískaka með karamellu og lakkrís
Uppskrift
Leiðbeiningar
BOTN
Setjið bökunarpappír í botninn og inn á hliðarnar á um 22 cm smelluformi (gott að klippa renning af bökunarpappír og líma innan á hliðina).
Setjið kexið í blandara þar til sandáferð hefur myndast og hellið í skál.
Blandið bræddu smjörinu saman við og setjið í botninn á forminu, þjappið létt niður og aðeins upp á
hliðarnar á bökunarpappírnum.
Kælið á meðan þið útbúið karamelluna og ísinn.
KARAMELLUSÓSA
Til að gera karamellusósuna, bræðið rjómakúlur og rjóma saman í potti við miðlungshita þar til jöfn karamellusósa hefur myndast.
Takið af hellunni, hellið um 100 ml af karamellunni í skál (til að blanda saman við ísinn) og geymið restina (til að hafa sem meðlæti með honum), hægt er að hita karamelluna upp síðar. Leyfið sósunni sem á að fara í ísinn sjálfan að þykkna og ná stofuhita áður en þið notið hana.
ÍS
Til að búa til ísinn, byrjið á að þeyta rjómann og leggið hann til hliðar.
Aðskiljið eggin og stífþeytið hvíturnar, leggið til hliðar.
Þeytið næst eggjarauður, sykur, púðursykur og vanillusykur saman þar til létt og ljóst og blandan þykknar.
Vefjið nú þeytta rjómanum varlega saman við með sleikju í nokkrum skömmtum og næst þeyttum eggjahvítum á sama hátt.
Að lokum má blanda söxuðum lakkrískúlunum varlega saman við allt saman.
Hellið um 1/3 af ísblöndunni yfir kexbotninn í forminu og dreifið um 1/3 af karamellunni þar yfir, endurtakið tvisvar til viðbótar þar til ísblanda og karamella er allt komið í formið.
Sléttið úr og frystið í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
Losið þá úr forminu, takið bökunarpappírinn af og skreytið með pandakúlum.
Innihaldsefni
ÍS
400 ml rjómi
5 egg (aðskilin)
50 g sykur
50 g púðursykur
2 tsk. vanillusykur
50 g Panda lakkrískúlur með hvítu súkkulaði og karamellu (saxaðar)
50 g Panda lakkrískúlur með mjólkursúkkulaði og pipardufti (saxaðar)
50 g Panda lakkrískúlur með hvítu súkkulaði og jarðarberjum (saxaðar)
100 ml karamella (sjá uppskrift að ofan)
1 pk Oreo kex (16 stk)
60 g brætt smjör
KARAMELLA
300 g Nóa rjómakúlur
150 ml rjómi
SKREYTING
50 g Panda lakkrískúlur með hvítu súkkulaði og karamellu
50 g Panda lakkrískúlur með mjólkursúkkulaði og pipardufti
50 g Panda lakkrískúlur með hvítu súkkulaði og jarðarberjum